Aðalfundur Hins íslenska þjóðvinafélags 2014
Aðalfundur Hins íslenska þjóðvinafélags var haldinn í Alþingishúsinu, fundarsal Alþingis, fimmtudaginn 9. október 2014. Hið íslenska þjóðvinafélag var stofnað af alþingismönnum 19. ágúst 1871. Í lögum félagsins er það ákvæði að aðalfundir þess skuli haldnir á Alþingi annað hvert ár. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, setti fundinn og stjórnaði honum. Guðbjartur Hannesson alþingismaður var fundarritari.
Dr. Guðrún Kvaran, varaforseti Þjóðvinafélagsins, sat fundinn af hálfu stjórnar. Hún skýrði frá störfum félagsins frá síðasta aðalfundi og gerði grein fyrir reikningum þess fyrir árin 2011–2013. Voru reikningarnir samþykktir.
Þá fór fram stjórnarkjör. Guðrún Kvaran, prófessor emeritus, var kosin forseti, fyrst kvenna í sögu félagsins, Gunnar Stefánsson, útvarpsmaður, var kosinn varaforseti, en meðstjórnendur voru kosin þau dr. Ármann Jakobsson prófessor Björk Ingimundardóttir, fyrrverandi skjalavörður, og Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis.