Jón Sigurðsson og Hið íslenska þjóðvinafélag

Grein eftir Ólaf Ásgeirsson birt í Andvara 2011

Hið íslenska þjóðvinafélag er 140 ára á þessu ári. Nær allan þann tíma hefur félagið verið hálfopinbert útgáfufélag og starfsemin hin síðari ár einkum falist í útgáfu tímaritsins Andvara og Almanaks sem ber heiti félagsins. Upphafsmaður þessa útgáfustarfs var Jón Sigurðsson, fyrsti forseti félagsins, og er Andvari beinlínis framhald af Nýjum félagsritum, málgagni Jóns forseta. Þjóðvinafélagið lifði áfram eftir andlát Jóns og naut ekki síst opinbers stuðnings vegna þess að það var félag Jóns Sigurðssonar og starf þess á vissan hátt helgað minningu Jóns forseta. En Þjóðvinafélagið var í öndverðu ekki hugsað sem formfast menningarfélag þótt útgáfustörf hafi verið viðfangsefni þess frá upphafi. Það var stofnað sem stjórnmálaflokkur og allsherjar framfarafélag þjóðarinnar. Fyrstu starfsárin var félagið eini stjórnmálaflokkurinn í landinu og var í fylkingarbrjósti í baráttunni fyrir stjórnarbót undir forustu Jóns Sigurðssonar. Vel fer því á að gera í afar grófum dráttum grein fyrir tilurð félagsins og starfsemi þess á meðan það naut forustu Jóns Sigurðssonar.

Pdf útgáfa af grein Ólafs Ásgeirssonar um Jón Sigurðsson.