Lög Hins íslenska þjóðvinafélags

I. Lög hins íslenzka þjóðvinafélags.

(samþykkt á fundi 22. júlí 1873).

 I.    

1. Það er tilgángur félagsins, að reyna með sameiginlegum kröptum að halda uppi þjóðréttindum Íslendínga, efla samheldi og stuðla til framfara landsins og þjóðarinnar í öllum greinum. Einkanlega vill félagið kappkosta, að vekja og lífga meðvitund Íslendínga um, að þeir sé sjálfstætt þjóðfélag, og hafi því samboðin réttindi. Nú sem stendur liggur næst að fylgja því fram, að vér fáum þá stjórnarskrá, er veiti oss fullt stjórnfrelsi í öllum íslenzkum málum, alþíng með löggjafarvaldi og fullu fjárforræði, og landstjórn í landinu sjálfu með fullri lagalegri ábyrgð fyrir alþíngi.

 II.         

2. Forstöðumenn félagsins eru:

  1. Forseti og varaforseti, sem í forföllum forseta, eða við fráfall hans, kemur í hans stað. Þeir skulu valdir til tveggja ára í senn, helzt úr alþíngismanna flokki, ef kostur er á, og skal að minnsta kosti annarhvor þeirra vera búsettur í Reykjavík, eða þar í grend. 
  2. Forstöðunefnd, og sé í henni 3 menn (auk forseta og varaforseta) valdir á sama hátt og til sama tíma sem forseti og varaforseti. Forstöðunefndin hefir á hendi aðalstjórn og yfirumsjón allra félagsmálefna og ráð yfir efnum þess og framkvæmdum, samkvæmt því, sem ákveðið verður á aðalfundum félagsins.
  3. Fulltrúar, einn eða fleiri í hverju kjördæmi, og einn erlendis, ef þar eru nokkrir félagsmenn, eða fleiri, ef þörf gjörist. Fulltrúar skulu valdir á aðalfundum félagsins til tveggja ára í senn. Ef fleiri eru en einn í kjördæmi, mega þeir skipta sóknum með sér sem hentast þykir, og skýra þeir þá forseta frá því. Fulltrúar mega og kjósa sér sjálfir varafulltrúa, eptir því sem þeim þykir þurfa, og skýra forseta frá. 
  4. Formenn skulu vera einn í hverri kirkjusókn, þar sem félagsmenn eru og þörf gjörist. Þeir skulu valdir af félagsmönnum sóknarinnar, eptir ráðstöfun þess fulltrúa, er hlut á að máli, sömuleiðis til tveggja ára í senn.

 

                         III.

3. Aðgángur í félagið stendur öllum opinn, sem komnir eru til vits og ára, og sem vilja efla félagið, og styrkja til að framkvæma tilgáng þess, hvort sem er ýngri eða eldri, búandi eða búlaus, karl eða kona, innlendir eða útlendir.

Fulltrúar og formenn geta veitt mönnum aðgáng í félagið.     

 4. Hver sem gengur í félagið, eða er í því, geldur að minnsta kosti 24 skildínga á ári hverju. Tillagið skal gjalda til formanna, fulltrúa, varaforseta eða forseta, eða þeirra, sem eru í þeirra stað. Formenn skulu senda tillög fulltrúum, og fulltrúar forseta eða varaforseta, að svo miklu leyti sem þeir hafa ekki umboð til að verja því.

 5. Hver formaður sendir fulltrúa, og hver fulltrúi forseta, eða varaforseta, einusinni á ári skýrslu yfir tillög félagsmanna og annað fé, sem koma kynni í félagssjóð, svo sem gjafir, eða andvirði fyrir seld rit, eða því um líkt. Forseti skal annast, að hver fulltrúi fái form til að laga eptir skýrslu sína.


       IV.

6. Framkvæmdarstörf félagsins skulu einkum fólgin í þessu fernu:

  1. Ritgjörðum og tímaritum um alþjóðleg málefni, einkum um réttindi Íslands, hagi þess og framfarir, eður og styrk til slíkra rita. Veita má og styrk eða þóknun einstökum mönnum, er sér í lagi styrkja til að efla framfarir landsins, eða framkvæma tilgáng félagsins.
  2. Samkomum til að ræða um þau alþjóðleg málefni, er liggja innan þeirra takmarka, sem félagið setur framkvæmdum sínum.
  3. Sendiferðum innanlands eða utan í félagsins þarfir, eða í þess erindum.
  4. Að því leyti efnin kynni að leyfa, vill félagið styrkja það, sem efla má bæði bóklega og verklega mentun í landinu, verzlun og verzlunarsamtök, atvinnu og framför landsmanna í hverju efni sem er, bæði til sjós og lands.

7. Það sem afgángs verður útgjöldum, skal setja á vöxtu sem innstæðusjóð. Forseti sendir fulltrúum eptirrit af reikníngum félagsins á ári hverju, eða lætur prenta þá ef það þykir betur henta.

 

V.

8. Félagið hefir aðalfundi annaðhvort ár á alþíngum. Forseti er þar fundarstjóri, og skal hann sjá um bókun þess í fundabók félagsins, er samþykkt verður á fundum þessum. Þar skal ræða sameiginleg málefni félagsins, kjósa forseta, varaforseta, forstöðunefndina og fulltrúana til næst eptirfylgjandi tveggja ára, rannsaka reiknínga félagsins, semja áætlun um tekjur þess og útgjöld til tveggja næstu ára á eptir, og gjöra aðrar þær ákvarðanir um framkvæmdar-störf félagsins á hinu sama tímabili, sem þurfa þykir. Á fundum þessum eiga fulltrúar félagsins einnig atkvæðisrétt. Það er komið undir ályktun á þessum fundum, hvort boða skuli félagsmenn til annara almennra funda, eða halda einn eða fleiri fundi í heyranda hljóði.

9. Fulltrúar skulu halda kjördæma-fundi eptir því sem þeir koma sér saman um, ef fleiri eru en einn í kjördæminu, með formönnum og félagsmönnum einusinni á ári hverju. Þar skulu fulltrúar skýra frá ástandi og aðgjörðum félagsins, eptir því sem þeim er kunnugt. Þar skal og ræða önnur félagsefni, einkum þau, er snerta kjördæmið sjálft, og semja þær ályktanir eða uppástúngur, er menn kynni vilja bera upp við forseta eður á aðalfundi.

10.  Í þeim sýslum, þar sem talsverðar tekjur bætast félaginu, hafa fulltrúar og fundarmenn á kjördæmafundum rétt á að leggja það til, að félagið ákveði nokkurt fjártillag sérstaklega til þeirrar sýslu, eða til framkvæmdar á einhverju því, sem sýslubúar þar óska sérstaklega, að svo miklu leyti, eða svo fljótt, sem efnahagur félagsins og aðrar framkvæmdir leyfa, þær er áður liggja fyrir. Þessar tillögur eða óskir mega þó ekki fara fram yfir eða út fyrir verksvið félagsins, eða koma í bága við tilgáng þess.

Þessir alþíngismenn samþykktu lögin á fundi 22. júlí 1873:


Jón Sigurðsson, þíngmaður Ísfirðínga.

Halldór Kr. Friðriksson, þíngmaður Reykjavíkur.

Jón Sigurðsson, þíngmaður Suður-Þingeyjar sýslu.

Benedikt Sveinsson, þíngmaður Árnesínga.

Páll Vídalín, þíngmaður Húnvetnínga

Eiríkur Kúld,  þíngmaður Barðstrendínga.

Björn Pétursson, varaþíngm. Suðurmúla sýslu

Davíð Guðmundsson, þíngmaður Skagfirðínga.

Egill Svb. Egilsson,  þíngmaður Snæfellínga.

Erlendur Gottskálksson, varaþíngmaður Norður-Þíngeyínga.

Guðmundur Einarsson, þíngmaður Dalamanna.

Hallgrímur Jónsson, þíngmaður Borgfirðínga.

Hjálmur Pétursson, þíngmaður Mýramanna.

Jón Jónsson, varaþíngmaður Vestur-Skaptfellínga.

Páll Ólafsson, varaþíngmaður Norðurmúla sýslu.

Stephán Eiríksson, þíngm. Áustur-Skaptfellinga.

Stephán Jónsson, þíngmaður Eyfirðinga.

Torfi Einarsson, þíngmaður Stranda sýslu.