Fréttir

25.9.2019

Aðalfundur Hins íslenska þjóðvinafélags 2019

Aðalfundur Hins íslenska þjóðvinafélags var haldinn í Alþingishúsinu, fundarsal Alþingis, þriðjudaginn 24. september 2019. Félagið er eina félagið sem heldur aðalfund sinn í sal Alþingis og helgast það af sögu þess og tilgangi. Félagið var stofnað af alþingismönnum 19. ágúst 1871. Í lögum félagsins er það ákvæði að aðalfundir þess skuli haldnir á Alþingi annað hvert ár.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, setti fundinn og stjórnaði honum. Þorsteinn Víglundsson var fundarritari. Dr. Guðrún Kvaran prófessor emeritus, forseti Þjóðvinafélagsins, sat fundinn af hálfu forstöðumanna þess. Hún skýrði frá störfum félagsins frá síðasta aðalfundi og gerði grein fyrir reikningum þess fyrir árin 2016–2018. Voru reikningarnir samþykktir.

Að lokum fór fram kosning stjórnar félagsins og endurskoðenda þess. Dr. Guðrún Kvaran var endurkjörin forseti félagsins. Aðrir stjórnarmenn voru einnig endurkjörnir en þeir eru: Gunnar Stefánsson útvarpsmaður, varaformaður, og meðstjórnendurnir, Karl M. Kristjánsson, fyrrverandi aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, dr. Ármann Jakobsson prófessor, og Björk Ingimundardóttir, fyrrverandi skjalavörður. Endurskoðendur voru endurkjörnir Friðrik Ólafsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni.

Þjóðvinafélagið gefur út ársritin Almanak og Andvara svo sem það hefur gert frá stofnun þess.