Fréttir

22.12.2005

Andvari 2005 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Er þetta 130. árgangur ritsins, sá fertugasti og sjöundi í nýjum flokki. Aðalgreinin að þessu sinni er æviágrip Þórarins Björnssonar skólameistara eftir Tryggva Gíslason, magister og fyrrverandi skólameistara. Þórarinn starfaði allan sinn starfsaldur við Menntaskólann á Akureyri, gerðist kennari þar 1933, en skólameistari árið 1948 og gegndi því starfi til dauðadags, 1968. Hann var menntaður í Frakklandi og liggja eftir hann þýðingar á frönskum bókmenntaverkum. Þórarinn þótti afburðakennari og naut mikils álits fyrir gáfur sínar og mannkosti. Hann var málsnjall með afbrigðum og annálaður ræðumaður.

Annað efni Andvara er grein eftir Aðalgeir Kristjánsson um Bessastaðaskóla 200 ára, grein um kynni Íslendinga af verkum James Joyce eftir Ástráð Eysteinsson og ítarleg ritgerð um ljóðaflokk Steins Steinars, Tímann og vatnið, eftir Örn Ólafsson. Þá er fjallað um nýjar ævisögur skálda, Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson og Jóhanns Sigurjónssonar eftir Jón Viðar Jónsson.

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og ritar hann hugleiðingu út frá atburðum sem minnst er á árinu og um viðhorf manna til íslenskrar tungu nú á tímum.

Andvari er 160 blaðsíður. Oddi prentaði en Sögufélag, Fischerssundi 3, Reykjavík, annast dreifingu.