Andvari 2007 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 132. árgangur, hinn 49. í nýjum flokki.

Aðalgreinin í ár er æviágrip Katrínar Thoroddsen, læknis og alþingismanns, eftir Kristínu Ástgeirsdóttur sagnfræðing. Hér er gerð grein fyrir störfum Katrínar sem barnalæknis, fræðslu hennar um getnaðarvarnir, sem var nýlunda á þeirri tíð, og baráttu fyrir kvenréttindum. Einnig er almennt fjallað um stjórnmálastörf hennar, en hún sat á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn 1946–
49.

Annað efni Andvara er sem hér segir: Þrjár greinar um skáldskap Jónasar Hallgrímssonar; greinar um nýjar bækur um Matthías Jochumsson og Guðmund Finnbogason, grein um Grím Thomsen og Byron í tilefni nýrrar bókar, um trúardeilur í kveðskap Vestur-Íslendinga og loks um fátækt og ójöfnuð af sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar.

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og ritar hann pistil í tilefni afmælisárs Jónasar Hallgrímssonar.

Andvari er 188 blaðsíður. Oddi prentaði en Sögufélag, Fischersundi 3, annast dreifingu.