Andvari 2009 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 134. árgangur, fimmtugasti og fyrsti í nýjum flokki.

Aðalgreinin í ár er æviágrip Gylfa Þ. Gíslasonar ráðherra eftir Sigurð E. Guðmundsson. Gylfi var um áratugaskeið einn helstu forustumanna Alþýðuflokksins og um skeið formaður flokksins. Hann sat á þingi í þrjá áratugi og var ráðherra mennta- og viðskiptamála í samfleytt fimmtán ár. Var hann mjög áhrifamikill í ráðuneytum sínum og mótun efnahagsstefnu, en Gylfi var hagfræðingur að mennt. Hann var prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands áður en hann varð ráðherra og einnig eftir þann tíma. Gylfi var mikill listunnandi og samdi vinsæl sönglög.

Annað efni Andvara er sem hér segir: Sveinn Einarsson skrifar um Jörund hundadagakonung í íslenskum skáldskap, Hannes Björnsson ritar um Hannes Árnason prestaskólakennara og sálfræði hans, Dagný Kristjánsdóttir birtir grein um skáldið Stein Steinarr, Jón Viðar Jónsson fjallar ítarlega um Lárus Pálsson leikara og leikstjóra í tilefni af nýrri ævisögu hans eftir Þorvald Kristinsson. Þá er löng grein eftir Kristmund Bjarnason um börn Gríms Jónssonar amtmanns. Hún er í framhaldi af ævisögu Gríms, Amtmaðurinn á Einbúasetrinu, sem Kristmundur sendi frá sér í fyrra og hlaut góðar viðtökur.


Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og birtir hann pistil fremst í ritinu sem nefnist „Eftir hrunið“.


Andvari er 196 blaðsíður. Oddi prentaði, en dreifingu annast Sögufélag, Fischerssundi 3. ISSN: 0258-3771.