Fréttir

6.12.2010

Andvari 2010 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 135. árgangur, fimmtugasti og annar í nýjum flokki.

Aðalgreinin í ár er ævíágrip Björns Ólafssonar, ráðherra, stórkaupmanns og iðnrekanda, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Björn sat í hinni frægu utanþingsstjórn 1942-44. Hann var síðan kjörinn á þing og var ráðherra í tveimur öðrum ráðuneytum, 1949-50 og 1950-53. Hann átti að mestu og rak um langt skeið verksmiðjuna Vífilfell. Björn var sjálfmenntaður, en aflaði sér góðrar þekkingar á ýmsum sviðum. Hann var mikill atorkumaður og sjálfstæður í skoðunum.

Annað efni í Andvara er sem hér segir: Bragi Þorgrímur Ólafsson skrifar um Jörund hundadagakonung, Páll Bjarnason um kvonbænir Bjarna Thorarensens og fjallað er um verk þriggja kunnra skálda tuttugustu aldar: Jón Karl Helgason ritar um Vikivaka Gunnars Gunnarssonar, Þorsteinn Þorsteinsson um ljóð Jóhanns Sigurjónssonar og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir um Pálsssögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Þá er birtur minningaþáttur Árna Kristjánssonar tónlistarstjóra um Markús Kristjánsson tónskáld.

Ritstjóri Andvara, Gunnar Stefánsson, fjallar um upphaf íslensks sjónvarps í minningu Benedikts Gröndals, helsta forustumanns í að koma því á laggirnar.
Andvari er 136 blaðsíður. Oddi prentaði en dreifingu annast Sögufélag, Fischerssundi 3. ISSN: 0258-3771.