Andvari 2011 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er nýkominn út. Þetta er seinna hefti 136. árgangs, hins fimmtugasta og þriðja í nýjum flokki. Í vor kom út sérstakt hefti ritsins, helgað tvö hundruð ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sem var fyrsti forseti Þjóðvinafélagsins.

Aðalgrein hins nýja heftis er æviþáttur um Jakob Benediktsson orðabókarritstjóra eftir Guðrúnu Kvaran, en hún er einn af eftirmönnum Jakobs við forstöðu Orðabókar Háskólans. Hér er rakin ævi og störf Jakobs sem var einn helstu lærdómsmanna þjóðarinnar í klassískum fræðum á sinni tíð. Hann vann mjög að ritstörfum og útgáfum á því sviði auk starfa sinna við Orðabókina.

Annað efni ritsins er þetta: Ólafur Ásgeirsson ritar um Jón Sigurðsson og Hið íslenska þjóðvinafélag. Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um skáldsöguna Snöruna eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Ástráður Eysteinsson ritar um Ernest Hemingway, íslenskar þýðingar á sögum hans og áhrif hans í íslensku bókmenntalífi. Sif Sigmarsdóttir skrifar um Annie, eiginkonu Jóns Leifs tónskálds og Sveinn Einarsson um óprentuð leikrit eftir Árna Thorsteinsson landfógeta.

Ritstjóri Andvara, Gunnar Stefánsson, fjallar í inngangi um frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.

Andvari er liðlega 160 síður. Oddi prentaði en dreifingu annast Sögufélag, Fischerssundi 3. ISSN: 0258-3771.