Andvari 2013 kominn út
Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 138. árgangur ritsins, hinn fimmtugasti og fimmti í nýjum flokki.
Aðalgreinin í ár er æviágrip Vilhjálms Þór eftir Jón Sigurðsson rekstrarhagfræðing. Vilhjálmur var einn af helstu áhrifamönnum í landinu um miðbik síðustu aldar. Hann var utanríkisráðherra í utanþingsstjórninni við stofnun lýðveldis, síðar bankastjóri Landsbankans og seðlabankastjóri. Þá var hann einn helsti foringi samvinnuhreyfingarinnar, ungur kaupfélagsstjóri Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri og síðar forstjóri SÍS.
Aðrar greinar í Andvara eru þessar: Páll Bjarnason skrifar um mat Tómasar Sæmundssonar á skáldinu Bjarna Thorarensen, Pétur Pétursson um guðfræðinginn og bókavörðinn Eirík Magnússon í Cambridge, Hjalti Hugason um söguna Gamalt og nýtt eftir Þorgils gjallanda og kirkjuádeilu hans. Sveinn Yngvi Egilsson ritar um náttúrusýn Steingríms Thorsteinssonar, Sveinn Einarsson um leikskáldið Árna Ibsen og Soffía Auður Birgisdóttir um sögur Bjarna Bjarnasonar. Þá ritar Gunnar Kristjánsson um Síðustu freistinguna, skáldsögu Nikos Kazantzakis sem nýkomin er út í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Gunnar Stefánsson skrifar hugleiðingar um ævisögu Gunnars Gunnarssonar eftir Jón Yngva Jóhannsson.
Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og birtir hann ritstjórapistil að venju. Andvari er 184 síður. Oddi prentaði. Háskólaútgáfan, Dunhaga 18, annast dreifingu ritsins.