• Andvari 2014

Andvari 2014 kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 139. árgangur, sá 56. í nýjum flokki.

Aðalgrein ritsins að þessu sinni er æviágrip Lúðvíks Jósepssonar, alþingismanns og ráðherra, eftir Svavar Gestsson. Lúðvík var þingmaður Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins samfleytt í 37 ár.  Hann var tvívegis sjávarútvegsráðherra og stóð þá að útfærslu landhelginnar, fyrst  í 12 mílur 1958 og síðar  í 50 mílur 1972. Lúðvík var formaður Alþýðubandalagsins 1977-80. 

Annað efni Andvara er sem hér segir: Hjalti Hugason ritar um nýútkomna ævisögu Jóns Sveinssonar, Nonna, eftir Gunnar F. Guðmundsson. Sveinn Einarsson fjallar um leikskáldið Stephan G. Stephansson og birtir áður óþekktan ljóðaleik eftir hann sem fjallar um „sálina hans Jóns míns.“

Ástráður Eysteinsson skrifar um skáldið Edgar Allan Poe og íslenskar þýðingar á kvæðum hans og sögum. Heimir Pálsson birtir greinina „Að læra til skálds – tilraun um nám“, en þar er fjallað um Eddu Snorra Sturlusonar sem kennslubók handa ungum skáldefnum.   

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og skrifar hann inngangspistil að vanda þar sem vikið er að nokkrum viðburðum ársins. Andvari er 194 blaðsíður. Oddi  prentaði. Aðsetur ritsins er hjá Háskólaútgáfunni, Dunhaga 18, og sér hún um dreifingu.