• Andvari 2016

Andvari 2016 kominn út

Aðalgreinin er æviágrip Ólafs Björnssonar, prófessors og alþingismanns, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.  Ólafur var lengi prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands og einn fremsti hagfræðingur sinnar samtíðar í landinu. Hann var einnig áhrifamikill í stjórnmálum um skeið. 

Annað efni er sem hér segir: Björn Þorsteinsson  ritar um Pál Skúlason, heimspekiprófessor og rektor Háskóla Íslands, og þátt hans í almennri menningarumræðu á sinni tíð. Auður Aðalsteinsdóttir skrifar um  Stóra skjálfta og aðrar sögur eftir Auði Jónsdóttur. Vésteinn Ólason ritar hugleiðingu um Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Kristján Eiríksson fjallar um doktorsrit Soffíu Auðar Birgisdóttur, "Ég skapa - þess vegna er ég, um  skrif Þórbergs Þórðarsonar". Eftir Guðrúnu Kvaran er greinin  "Þýðing þriggja  guðspjalla", og loks er ítarleg grein eftir Hjalta Þorleifsson um lífhyggju í verkum Sigurðar Nordals, einkum um rit hans kringum 1920, Fornar ástir og fyrirlestrana Einlyndi og marglyndi. Gunnar Stefánsson skrifar að vanda  pistilinn  "Frá ritstjóra" og fjallar þar um stjórnmálviðburði á árinu, forsetakosningar og afsögn forsætisráðherra í apríl.