Andvari um Jón Sigurðsson

Út er komið hefti af Andvara, riti Hins íslenska þjóðvinafélags, sem helgað er Jóni Sigurðssyni í tilefni af tveggja alda afmæli hans 17. júní. Jón var fyrsti forseti félagsins, frá 1871-79. Félagið var stofnað sem samtök fylgismanna Jóns í stjórnarskrármálinu. Andvari var í upphafi málgagn hans, tók við af Nýjum félagsritum, og þar birti forsetinn síðustu stjórnmálaritgerðir sínar.

Í Andvara að þessu sinni rita níu fræðimenn um ýmsa þætti sem varða Jón Sigurðsson, líf hans, starf og stefnumál. Efnið er sem hér segir: Guðjón Friðriksson, sem samið hefur nýlega tveggja binda ævisögu Jóns, skrifar yfirlit um ævi hans. Gunnar Karlsson fjallar um forsetann í söguritun Íslendinga fyrr og síðar. Sverrir Jakobsson ritar um fræðastörf Jóns Sigurðssonar. Eftir Sigurð Pétursson er greinin „Jón Sigurðsson og Vestfirðingar“. Þorvaldur Gylfason skrifar grein sem nefnist „Myndin af Jóni forseta“. Birgir Hermannsson á hér greinina „Landsréttindi og sjálfstæðisbarátta“. Ágúst Þór Árnason fjallar um Jón Sigurðsson og stjórnskipun Íslands. Eftir Margréti Gunnarsdóttur er „Svipmynd af Ingibjörgu“, um Ingibjörgu Einarsdóttur, konu Jóns. Loks er ritsmíð sem heitir „Manntafl sjálfstæðisbaráttunnar“ eftir Jón Karl Helgason. - Ritstjórinn, Gunnar Stefánsson, skrifar inngangsorð að ritinu. Í því eru margar myndir.

Andvari er 160 blaðsíður. Oddi prentaði en dreifingu annast Sögufélag, Fischerssundi 3. ISSN: 0258-3771.